*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 16. apríl 2019 16:26

Icelandair og Kvika lækkuðu mest

Bæði félögin lækkuðu um í kringum 2,5% í viðskiptum dagsins, en mestu viðskiptin voru með bréf Skeljungs.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,46% í dag, en heildarviðskiptin í kauphöllinni námu um 2,3 milljörðum króna. Fór vísitalan niður í 1.917,99 stig, en þar vegur eflaust þungt að gengi bréfa stærsta félagsins í kauphöllinni, Marel lækkaði um 0,39%, niður í 517,00 krónur í 134 milljóna viðskiptum.

Mesta lækkunin var þó á gengi bréfa Icelandair, eða um 2,65% í 90 milljóna viðskiptum, og fóru bréfin niður í 9,20 krónur. Næst mesta lækkunin var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 2,40%, í 11,78 krónur, í 279 milljóna viðskiptum, en gengi bankans hækkaði um nærri 9% í gær í kjölfar jákvæðrar afkomuviðvörunar.

Mesta hækkunin var svo aftur á móti á bréfum Skeljungs, um 1,14%, í 7,99 krónur, í 353 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt eru næst mestu viðskiptin með eitt félag í kauphöllinni í dag. Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Símans, eða fyrir 395 milljón krónur, en bréf fjarskiptafélagsins lækkaði um 1,0%, niður í 3,96 krónur.

Gengi evrunnar gagnvart íslensku krónunni stóð í stað í dag, eða í 135,15 króna kaupverði, meðan Bandaríkjadalur styrktist um 0,17%, í 119,71 krónu í kaupum og breska pundið veiktist um 0,24%, niður í 156,25 króna kaupverð.

Stikkorð: Marel Icelandair Skeljungur Síminn Kvika