Í dag opnar Icelandair nýjar sjálfsafgreiðslustöðvar við innritun í Leifsstöð. Stöðvarnar eru sex talsins og eru staðsettar í innritunarsalnum. Með þeim gefst farþegum félagsins kostur á að innrita sig og farangur sinn sjálfir og velja sér sæti segir í tilkynningu félagsins.

"Tilgangurinn með því að setja upp sjálfafgreiðslustöðvarnar er að auka þjónustuna og stytta biðtíma farþega eftir innritun. Allir sem leið hafa átt um flugstöðina á undanförnum misserum þekkja að á álagstímum myndast biðraðir í innritunarsalnum og sjálfsafgreiðslustöðvarnar eru settar upp til þess að létta álagið", segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair.

Allir farþegar Icelandair geta notað sjálfsafgreiðslustöðvarnar, en reynslan erlendis frá sýnir að það eru gjarnan þeir sem fljúga oft sem nýta sér þær mest. Tölvubúnaður gerir farþegum innritunina mjög auðvelda, hvort sem notast er við hefðbundna farseðla eða rafræna miða. Þá er nóg að gefa upp bókunarnúmer, eða renna í gegn greiðslukortinu sem greitt var með.
Síðan birtist mynd af sætaskipan viðkomandi flugvélar og farþegar smella á það sæti sem þeir kjósa. Innritunin tekur um það bil 30-40 sekúndur.

Hugbúnaðurinn í sjálfsafgreiðslustöðvunum er þróaður í samvinnu við tölvufyrirtækið CSC, sem hefur meðal annars unnið með SAS að sambærilegum verkefnum. Tækin sjálf eru í eigu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.