Félag í meirihlutaeigu forstjóra og aðstoðarforstjóra Ocean to Ocean (OTO), dótturfélags Icelandic Group, hefur keypt vöruheiti OTO, viðskiptasambönd, umbúðir, vörumerki og birgðir. Heitið félagið Ocean Canada og er í meirihluta eigu Joe Wineck forstjóra OTO og Lillian Chow aðstoðarforstjóra. Ocean to Ocean seldi birgðir sínar og vörumerki í Bandaríkjunum í árslok 2007 til Singleton Fisheries undir nafninu Meridian.

Í tilkynningu frá Icelandic Group kemur fram ástand á rækjumörkuðum hafi versnað til muna á síðastliðnum árum. Sala á Kanada hlutanum geri Icelandic USA kleift að einbeita sér á sérsviði sínu, þ.e.  fullunnum sjávarafurðum og hefðbundnum bolfiskafurðum.

„Salan hefur óveruleg áhrif á rekstur og efnahag Icelandic Group en Ocean to Ocean hefur verið rekið með tapi síðastliðin ár,” segir í tilkynningunni. „Til framtíðar mun salan hafa jákvæð áhrif á rekstur Icelandic USA. Tilgangur sölunnar er að skerpa áherslur í rekstri Icelandic Group og lækkun skulda.”

Icelandic Group hefur glímt við þunga skuldastöðu og voru vaxtaberandi skuldir í ársbyrjun 2007 um 564 milljónir evra en höfðu lækkað um tæp 10% í árslok.