Landsbanki Íslands, sem skilaði methagnaði á fjórða ársfjórðungi þrátt fyrir hrakspár í byrjun síðasta árs, hefur minnkað verulega vægi alþjóðlegra fjármálamarkaða og hafa innlán aukist um 47% á árinu.

Sigurjón Árnason, annar bankastjóra Landsbankans, sagði í samtali við Viðskiptblaðið frá London að áskrifendur Icesave-sparileiðinnar í Bretlandi séu nú 44 þúsund, sem hafi skilað um 1,25 milljörðum punda til innlánastarfseminnar.

Álag á skuldatryggingar Landsbankans dróst verulega saman í morgun í 29 punkta, sem gefur til kynna að Landsbankinn geti nú sótt fjármagn á alþjóðlega fjármálamarkaði á mun betri kjörum en áður. Sérfræðingar segja góða afkomu á árinu og aukin innlán hafa stuðlað að minnkandi álagi.

Sigurjón sagði viðtökur Icesave í Bretlandi framar björtustu vonum og að verið væri að skoða möguleika á því að fara með sparileiðina, sem er sparireikninur á netinu, til annarra landa með það að markmiði að auka innlán í evrum.