Undanfarnar vikur hefur Icewear / Víkurprjón unnið að stækkun prjónaverksmiðju sinnar í Vík í Mýrdal.

Prjónavélum verksmiðjunnar hefur verið fjölgað úr sex vélum í tólf, en nýju vélarnar munu vera mun afkastameiri en þær sem fyrir voru. Þá eru nokkrar vélanna gerðar til að prjóna vörur úr léttlopa sem er nýjung á Íslandi. Samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu mun stækkunin skapa því mikil tækifæri til að sækja á nýja markaði og anna sívaxandi eftirspurn eftir íslenskum ullarvörum.

Efling prjónaverksmiðjunnar hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Hafa starfsmenn sótt námskeið til Þýskalands til þess að læra á nýju vélarnar. Sérfræðingur frá Stoll verksmiðjunum hefur einnig komið til landsins til þess að setja vélarnar upp og þjálfa starfsmenn.