Á níunda ártugnum stofnaði Orri Vigfússon, sem oftast er kennur við Verndarsjóð villtra laxastofna (NASF), fyrirtækið Sprota hf. í samvinnu við Ólaf Sigurðsson, fyrrverandi fréttamann hjá Sjónvarpinu.

„Þetta var hans hugmynd," segir Orri. „Mér leist aftur á móti vel á þetta og við stofnuðum fyrirtækið Sprota hf. sem hóf að framleiða ICY vodka. Fyrst þurftum við að framleiða vodkað í Skotlandi af því að íslensk lög bönnuðu öðrum en íslenska ríkinu að framleiða áfengi. Þorsteinn Pálsson breytti þessu síðan þegar hann var fjármálaráðherra og eftir það gátum við framleitt ICY á Íslandi. Við sömdum við Mjólkursamsöluna í Borgarnesi og framleiddum vodkann á einni hæðinni hjá þeim."

Þeir Orri og Ólafur fóru í samstarf með Brown-Forman, sem er einn stærsti vínframleiðandi í heimi ,en fyrirtækið framleiðir meðal annars Jack Daniel's og Southern Comfort.

„Brown-Forman átti hlut í ICY merkinu og þetta gekk mjög vel í nokkur ár. Þegar best lét vorum við að flytja út á bilinu 100 til 150 gáma ári af ICY vodka," segir Orri.

„Síðan gerðist það að Brown-Forman keypti Finlandia vodka og þar með lauk okkar samstarfi. Ég keypti þeirra hlut í ICY merkinu tilbaka og á þetta allt enn. Fljótlega eftir þetta hættum við framleiðslu á ICY enda vorum við ekki með sama aðgang að mörkuðum og Brown-Forman. Það eru einhver fimm til sex stór fyrirtæki sem drottna yfir brennivínsmarkaðnum í heiminum og ef þú ert ekki að vinna með þeim þá geturðu nánast gleymt þessu."

Í Viðskiptablaðinu er viðtal við Orra Vigfússon. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .