IFS spáir því að hagnaður ársins hjá Eimskip 2012 verði um 16,9 milljónir evra og að EBITDA-afkoma verði rúmlega 39 milljónir evra. Hagnaður á árinu 2011 var um 6,8 milljónir evra.

Eimskip birtir uppgjör fyrir árið 2012 í dag, fimmtudag. Í afkomuspánni segir að litlar fréttir hafi borist af félaginu á síðasta ársfjórðungi 2012. Í janúar var greint frá því að Eimskip hafi misst samning um flutning á rafskautum fyrir Alcoa Fjarðaál en félagið sagði í samtali við Viðskiptablaðið að áhrifin væru óveruleg.

Því er spáð að tekjur Eimskips hafi verið um 412 milljónir evra í fyrra samanborið við um 378 milljónir árið 2011. Heildarkostnaður síðasta árs er metinn um 373 milljónir evra í spá IFS samanborið við 342 milljóna kostnað árið 2011.