IFS greining telur að raunvirði sérbýla og dýrari eigna eigi eftir að lækka að meðaltali um 5-10% á ári næstu tvö árin, en raunverð íbúða í fjölbýli eigi aftur á móti eftir að hækka að meðaltali og muni hækka svo mikið að raunfasteignaverð almennt eigi eftir að hækka um 1% á ári næstu tvö árin.

Frá janúar 2003 til hápunkts nafnverðs í janúar 2008 hækkaði íbúðaverð að raunvirði um tæp 68,5% eða um 11% á ári að jafnaði.

Raunverð sérbýla og stærri eigna mun mögulega lækka minna eða haldast stöðugt sé eignin staðsett í hverfi með jákvæðar eða stöðugar horfur samkvæmt hverfagreiningu IFS.

Í skýrslu IFS eru horfur á höfuðborgarsvæðinu greindar eftir póstnúmerum. Hvað Reykjavík varðar eru horfur sagðar jákvæðar í póstnúmerum 101, 104, 105, 107, 108 og 112. Horfur eru stöðugar í póstnúmerunum 103, 110 og 111, en neikvæðar í póstnúmerunum 109 og 113.

Þegar komið er út fyrir höfuðborgina er póstnúmerið 201 í Kópavogi eina ljósið í myrkrinu, en þar telur IFS að horfur séu jákvæðar. Horfur eru sagðar stöðugar í Seltjarnarnesi og póstnúmerinu 200 í Kópavogi, en í öðrum svæðum Kópavogs, í öllum Garðabæ, Hafnarfirði og í Mosfellsbæ eru horfur sagðar neikvæðar hvað varðar þróun fasteignaverðs.