Að undanförnu hefur hagvöxtur á helstu hagsvæðum heimsins batnað. Hagtölur frá Kína benda til þess að hagvöxtur þar í landi hafi verið mikill á sama tíma og Vesturlönd ganga í gegnum eina mestu niðursveiflu frá síðari heimsstyrjöld.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IFS Greiningar um erlenda markaði. Þar segir að samkvæmt gögnum frá Harbor Intelligence hefur spurn eftir áli aukist frá því í janúar á þessu ári. Spurn eftir hrávöru frá Kína, aukin áhættusækni, lág birgðastaða, veikur dollar og aukin framleiðsla hafa leitt til aukinnar spurnar eftir áli á ný.

IFS segir að s.l. vetur hafi álframleiðendur dregið úr framleiðslu þar sem eftirspurn dróst saman vegna minni framleiðslu og spurnar eftir vélum, bílum og öðrum neysluvörum. Hins vegar hafi kínverskir álframleiðendur aukið framleiðslu sína á ný og er framleiðslan nú álíka mikil og í byrjun árs.

„Gögn frá Kína benda til þess að framleiðsla sem notar ál hafi tekið við sér,“ segir í skýrslu IFS.

„Bílaframleiðsla í Kína hefur aukist um 37% frá því í febrúar, fjárfestingar í mannvirkjagerð aukast hratt og þunnálframleiðsla (Can sheet) hefur aukist um 22% frá því í febrúar.“

Álbirgðir aldrei meiri en birgðatölur þarf að leiðrétta

Þá segir IFS að í sögulegum samanburði hafi álbirgðir aldrei verið meiri. Samkvæmt gögnum frá London Metal Exchange (LME) eru birgðir um 4,6 milljónir tonna. Ef álbirgðir hjá LME eru mældar sem hlutfall af mánaðarframleiðslu, þá samsvara núverandi birgðir um 2,2 mánaða framleiðslu, sem er sögulega mjög mikið. Árið 1994 samsvaraði birgðastaðan einnig um 2,2 mánaða framleiðslu, en þá var framleiðsla um 25% minni en hún er í dag. IFS segir að þetta mikil birgðastaða ætti að hafa neikvæð áhrif á álverð.

Þá kemur fram í skýrslunni að birgðir hjá LME eru að stórum hluta tilkomnar vegna framvirkra samninga sem höndlað er með í kauphöllum. Því sé ekki hægt að nýta þann hluta birgðanna nema að samningarnir renni út. Sé leiðrétt fyrir birgðum tengdum fjármálasamningum (3,18 milljónir tonna) og birgðum sem nú þegar hafa verið keyptar (0,12 milljónir tonna), eru tiltækar birgðir einungis 1,34 milljónir tonna.

„Birgðir sem eru bundnar við fjármálasamninga eru tilkomnar vegna svokallaðra ‘cash and carry’ viðskipta,“ segir í skýrslu IFS.

„Í þeim viðskiptum selja spákaupmenn ál framvirkt og kaupa ál á stundarmarkaði. Alcoa telur að allt að 75% allra birgða LME séu tengdar slíkum samningum. Líftími slíkra samninga er frá 90 dögum til eins árs og fáir samningar eru með lengri líftíma en eitt ár. Ef gengið er út frá því að samningar verði ekki endurnýjaðir, gætu þessar birgðir verið taldar sem tiltækar birgðir síðar meir. Það ætti að lækka verð vegna meira framboðs birgða. Vandamálið er hins vegar það að litlar líkur eru á því að spákaupmenn hverfi af sjónarsviðinu. Það má frekar búast við því að áhugi spákaupmanna aukist hækki hrávöruverð. Það gerir það að verkum að birgðirnar sitja fastar.“

Samband hráolíu og álverðs bendi til hærra álverðs

Þá segir loks að í sögulegum gögnum megi sjá að jákvætt samband er á milli verðs á hráolíu (NYMEX) og álverðs (LME 3 Month). Frá því í febrúar hafi verð á hráolíu hækkað um 99% og verð á áli um 54%. Frá því hrávöruverð fór hvað hæst sumarið 2008, hefur verð á hráolíu hinsvegar lækkað um 49% og álverð lækkað um 42%. Sveiflur á hráolíuverði eru meiri sem skýrist m.a. af fleiri spákaupmönnum á hráolíumarkaði.

„Hráolíuverð í dag stendur í um $81, og út frá sögulegu sambandi á myndinni ætti álverð þá að standa í um $2.200,“ segir í skýrslu IFS.

Veiking Bandaríkjadollars styður við álverð

Þá segir loks að hrávörur hafi notið góðs af veikingu Bandaríkjadollars. Margir kaupendur hrávara séu utan Bandaríkjanna og hugsa því ekki um verð hrávöru í dollar heldur í heimamynt sinni eða öðrum helstu gjaldmiðlum.

„ Veiking dollars lækkar hrávöruverð í öðrum myntum sem ýtir undir frekari kaup aðila utan Bandaríkjanna á hrávörum,“ segir í skýrslu IFS og því bætt við að veiking dollars sé einungis ein ástæða hækkunar á álverði. Að sama skapi hafi vísitala Bandaríkjadollars veikst um 13% frá því í febrúar en á sama tíma hafi álverð hækkað um 46% og veiking dollars skýri því einungis um fjórðung hækkunar álvers.