Allar líkur eru á að verðbólga fari hratt lækkandi á næstunni líkt og 3 mánaða verðbólga bendir til. Gengi krónunnar hefur haldist stöðugt að undanförnu og ef ekki kemur til veikingar eða frekari hækkunar á neyslusköttum mun verðbólgan lækka hratt á næstunni.

Þetta kemur fram í viðbrögðum IFS Greiningar í morgun en samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,78% frá fyrra mánuði í september sem þýðir að 12 mánaða verðbólga mælist nú 10,8% en var í síðasta mánuði 10,9%.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun 12 mánaða verðbólgu síðustu 5 árin. Þar sést hvernig verðbólgan náði hámarki í janúar á þessu ári eða 18,6% en hefur lækkað jafnt og þétt síðan þá ef undan er skilinn júnímánuður.

Spár markaðsaðila um hækkun VNV lágu á bilinu 0,7-0,8%. IF S segir verðbólgu til 3 mánaða gefa góða mynd af undirliggjandi verðbólgu en hún mælist nú 6,1% á ársgrundvelli.

Eins og við var búist hækkaði verð á matar- og drykkjarvöru. Verð matvæla hækkaði þó heldur minna en verðkönnun okkar benti til. Matvælaverð hækkaði um 1,6% sem hafði um 0,25% áhrif á vísitöluneysluverðs til hækkunar.

„Til samanburðar reiknuðum við með um 2,6% hækkun,“ segir í viðbrögðum IFS.

Verð á fatnaði hækkaði um 6% sem hafði um 0,35% áhrif á vísitölu neysluverðs til hækkunar. Hækkun á fatnaði var nærri helmingi meiri en spá IFS sagði til um og vó á móti minni hækkun á matvælum en við spáðum. Eldsneytisverð lækkaði um 2,8% sem hafði -0,12% áhrif á vísitölu neysluverðs til lækkunar.

Fasteignaskrá Íslands og Hagstofa Íslands mældu báðar verðhækkun á fasteignaverði í mánuðnum. Samkvæmt Hagstofunni hækkaði fasteignaverð um 0,8% sem hafði um 0,1% áhrif á vísitölu neysluverðs.