Verðbólguspá IFS greiningar fyrir nóvember hljóðar upp á hækkun vísitölu neysluverðs um 0,4% frá fyrri mánuði. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mæast 3,0%.

Bensínverð hækkar en húsnæði lækkar

Samkvæmt algengum verðum hjá stóru olíufélögunum þá hefur verð á bensíni hækkað um 2,53% og verð á dísel hefur hækkað um 1,99%, að því er segir í verðbólguspá IFS. Vísitöluáhrif þess eru 0,13%.

„Gögn FMR mæla lækkun fermetraverðs um -0,5% undanfarna þrjá mánuði. Sérbýli hefur hækkað en verð á fjölbýli lækkað. Viðskipti með sérbýli eru færri en með fjölbýli og ekki er leiðrétt fyrir gæðum eða staðsetningu í gögnum FMR. spánni er gert ráð fyrir -0,46% lækkun á reiknaðri húsaleigu (vísitöluáhrif: - 0,06%). Byggingarvísitala lækkaði um -2,04% í nóvember og í spánni er gert ráð fyrir -2,04% lækkun á verði viðhalds og viðgerða á húsnæði (vísitöluáhrif: -0,10%).“

Matarkarfan hækkar

Í verðbólguspánni er gert ráð fyrir 0,08% hækkun verðbólgu í nóvember vegna 0,8% hækkunar á verði matarkörfunnar. Mánaðarleg verðmæling IFS á verði matarkörfunnar er framkvæmd á ákveðnum vörum sem nær ávallt eru til sölu. Segir að svo virðist sem að vörurnar hafi hækkað í verði. Þá hækkuðu fatnaður og skór um 5% frá því í október. Vísitöluáhrif þess eru 0,2%.

„Gjaldskrárhækkun OR heldur áfram að skila sér inn í vísitöluna og nema vænt áhrif hennar um 0,17% á vísitölu neysluverðs. OR er með um helmings markaðshlutdeild í smásölu á raforkumarkaði og í verðbólguspánni nú er hvorki gert ráð fyrir að samkeppnisaðilar hækki gjaldskrár né kaupendur raforku/heits vatns hækki verð til að mæta auknum kostnaði. Líklegt er að samkeppnisaðilar hækki gjaldskrár á næstunni en erfitt er að meta það sem stendur.“

Verðbólga við markmið fyrir áramót

„Gangi þessi spá eftir mun verðbólgumarkmið Seðlabankanns nást fyrir áramót, ef verðbólgan í desember mælist næstum engin (0,024%) eða verðhjöðnun verði raunin. Við teljum að 12 mánaða verðbólga verði nær markmiðinu í lok árs vegna lágs verðbólguþrýstings í desember.“