Framboð Illuga Gunnarssonar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kostaði hann ríflega 4,8 milljónir króna, en Illugi stefndi á fyrsta sætið í prófkjörinu. Af þeim framboðum sem upplýsingar liggja nú fyrir um var framboð Illuga það langdýrasta.

Framlög til framboðs Illuga frá einstaklingum námur rúmri 1,1 milljón króna og þar af nam framlag Kára Stefánssonar, stofnanda Íslenskrar erfðagreiningar 400.000 krónum. Er það jafnframt stærsta einstaka framlagið til framboðsins. Nítján aðrir einstaklingar styrktu Illuga um samtals 741.990 krónur.

Þrjátíu og einn lögaðili lögðu Illuga til fé í baráttunni. Stærstu framlögin voru upp á 300.000 krónur frá Bláa Lóninu, Eskju og HB Granda. Sex fyrirtæki styrktu hann um 200.000 krónur hvert og voru það 4-3 Trading, Fiskitangi, Fóðurblanda, GAM Management, Lýsi og Mjólka. Önnur fyrirtæki gáfu 100.000 krónur eða minna til framboðsins.

Framlag frá Bæjarins bestu

Þá eru einnig komnar fram upplýsingar um framboð Áslaugar Maríu Friðriksdóttur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Framboðið kostaði 1.145.000 krónur. Bein framlög frá 24 einstaklingum námu 565.000 krónum og þá styrktu sjö fyrirtæki framboð Áslaugar. Eignarhaldsfélag Hörpu, Brim, Ísfélag Vestmannaeyja, Lýsi og Bæjarins bestu gáfu hvert um sig 100.000 krónur. Þríund gaf 50.000 krónur og Ögurvík 30.000 krónur.

Vb.is hefur áður fjallað um kostnað og styrktaraðila fleiri frambjóðenda í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar .