„Það sem vakir fyrir mér er að þingið þarf að fá tækifæri til að ræða vaxandi vanda evrunnar. Það er orðið alveg augljóst að ef það á bjarga evrunni þá verður það ekki gert nema ef ESB breytist,“ segir þingmaðurinn Illugi Gunnarsson sem boðar til sérstakrar umræðu á Alþingi í dag um stöðu evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins. Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra verður til andsvara.

Illugi segir í samtali við Viðskiptablaðið umræður sem þessar ekki hafa verið margar á Alþingi upp á síðkastið. Reynt hafi verið að halda þingmönnum við þau frumvörp sem liggi frammi.

Hann bendir hins vegar á mikilvægi þessarar sérstöku umræðu í ljósi þess að Evrópusambandið sé að breytast í skugga skuldakreppunnar á evrusvæðinu.

„Ef þetta er þróunin þá stöndum við frammi fyrir því að ESB hefur tekið augljósum og miklum breytingum síðan við sóttum um aðild að sambandinu. Ef evran á að ganga upp þá mun ESB taka enn meiri breytingum á næstu misserum. Þá er það orðin spurning fyrir okkur hvort við þurfum að skoða forsendur aðildarumsóknarinnar upp á nýtt og hvaða áhrif þessi þróun mun hafa á okkar efnahag," segir hann og bendir á að ef evran verður til þegar Íslendingar ganga í myntbandalagið þá verði það sökum þess að búið verði að breyta ESB í grundvallaratriðum og forsendur orðnar aðrar en þegar aðildarviðræður stjórnvalda hófust.

„Það er svolítið sérstakt ef menn vilja fara inn í evrusamstarfið þegar menn vita ekki hvort hún verði til þegar það gerist," segir Illugi.