Fyrirtækið Íslenskar ilmkjarnaolíur sem gera út á vörumerkið Nordic angan framleiða, eins og nafnið ber með sér, ilmkjarnaolíur úr íslenskum jurtum og trjám. Engin hefð er fyrir eimingu jurta á Íslandi þótt hún sé rík í öðrum löndum og því má segja að stofnendur fyrirtækisins séu brautryðjendur á heimsvísu þegar kemur að eimingu íslenskra jurta.

„Upphaflega er þetta verkefni sem Sonja Bent, stjórnarformaður Íslenskra ilmkjarnaolía, byrjaði á, að eima og gera tilraunir með eimingar á íslenskum jurtum. Síðastliðið vor sóttum við um styrk í Hönnunarsjóð og atvinnumál kvenna og fengum styrkinn til þess að gera rannsóknaverkefni á eimingu íslenskra jurta,“ segir Elín Hrund Þorgeirsdóttir, ein þriggja eigenda Íslenskra ilmkjarnaolía, en þær hlutu styrkina og vörðu sumrinu að byggja upp þekkingu á íslenskum jurtum. „Við fengum þessa styrki og eyddum sumrinu í að gera tilraunir því eiming jurta er flókið ferli og það eru ekki til neinar heimildir um íslenskar jurtir, hvernig þarf að eima þær og tína þær. Þetta þarf allt að vera tínt á réttum tíma og eimað á réttan hátt,“ segir Elín Hrund.

Fyrirtækið hefur þegar hafið framleiðslu. „Við höfum nú þegar búið til íslensk reykelsi og það eru fyrstu reykelsin sem eru úr íslenskum jurtum án allra eiturefna. Þau eru komin á markað ásamt ilmkjarnaolíum þótt það sé í litlu magni ennþá,“ segir Elín Hrund en hægt er að nálgast vörur þeirra í Hönnunarsafninu í Garðabæ en einnig á heimasíðu félagsins, Nordicangan.com.

Næsta vor verður ný verksmiðja tekin í notkun ásamt gestastofu. „Við erum að fara að opna verksmiðju í Álafosskvosinni í vor og þar verður líka gestastofa þar sem við munum taka á móti fólki og fræða um ilmkjarnaolíur. Svo verður þetta líka hönnunarstofa því við erum hönnuðir og erum að fara að nota það sem við framleið- um í eigin hönnunarvöru,“ segir hún enn fremur.

Að sögn Elínar Hrundar eru ilmkjarnaolíur ekki aðeins fyrir lyktarskynið heldur hafa þær aðra eiginleika. „Ilmkjarnaolíur eru mikið notaðar sem ilmgjafar í vörur, bæði sem ilmgjafar og vegna eiginleika sinna. Við erum ekki alveg komin það langt en samskonar ilmkjarnaolíur hafa verið efnagreindar erlendis og þar kemur í ljós að sumar eru bakteríu- og sveppadrepandi. Sem er algengt, sérstaklega á trjám, því tré framleiða ilmkjarnaolíu til þess að fæla frá sér bakteríur, sveppi og skordýr,“ segir hún og bendir á að olíurnar séu mikið notaðar í Asíu, meðal annars í verkjameðferð í Japan.