Í skýrslu nefndar um heimildir fjármálafyrirtækja til gjaldtöku, sem Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur lýst stuðningi við, kemur meðal annars fram að takmörk verði lögð á uppgreiðslugjöld við lán á breytilegum vöxtum, en að öðru leyti sé uppgreiðslugjald miðað við kostnað sem lánveitandi verði fyrir vegna ótímabærrar uppgreiðslu.

Björgvin segir það blasa við að Íbúðalánasjóður starfi ekki í gegn áliti nefndarinnar, en í pistli sem birtist í Vefþjóðviljanum í fyrradag segir að ríkið innheimti sjálft hæstu uppgreiðslugjöldin [í gegn um ÍLS] en þykist um leið vera í stríði gegn þeim. Þar eru teknar til tölur sem segja til um að uppgreiðslugjald ÍLS geti verið allt að 20% á föstum lánum og jafnvel meira ef vextir sambærilegra lána hafi lækkað mikið frá lántöku.

Björgvin segir að næsta skref nefndarinnar varði Íbúðalánasjóð sérstaklega. "Niðurstaða er beðið frá Evrópusambandinu varðandi neytendalán almennt og uppgreiðslugjöld þar sem er verið að setja hámörk. Þetta var rætt í nefndinni og talið rétt að bíða niðurstöðu þar til að fá frekari viðmið þegar festa á prósentutölu. Verður haldið áfram með það og næsta skref mun varða ÍLS og þeirra lánaflokka, sem verða skilgreindir frekar og jafnvel lagt til að viðskiptaráðuneytið gefi út reglugerð um hámörk á föstu lánunum," segir Björgvin.