Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti í kvöld lán til Íslands. Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, staðfesti það við Viðskiptablaðið. Lánið hljóðar upp á 2,1 milljarð Bandaríkjadollara.

Erfiðir tímar eru framundan, segir Poul Thomsen, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópudeildar IMF.

Gert er ráð fyrir því að Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk láni samtals 2,5 milljarða dollara til viðbótar við IMF. Stjórnvöld hafa sagt að Íslendingar þurfi 5 milljarða Bandaríkjadollara vegna fjármálakreppunnar.

Alþingi mun fjalla um málið á morgun, fimmtudag, og hefst þingfundur kl. 10.30.  Þá verður mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um fjárhagslega aðstoð frá IMF.

Tillöguna og áætlun stjórnvalda vegna aðstoðarinnar má finna hér.

Erfiður tími framundan

Samkvæmt fréttatilkynningu frá IMF fá Íslendingar um 827 milljónir Bandaríkjadollara, af heildarláninu, þegar til ráðstöfunar.

Hlusta má á yfirlýsingu Poul Thomsens , aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópudeildar IMF , vegna lánsins til Íslendinga hér . Þar segir hann meðal annars að tíminn framundan sé erfiður.

(Fréttin var uppfærð kl. 23.50).