Nýjar tölur sýna að iðnaðarframleiðsla jókst um 1,6% í júlí frá júnímánuði. Vöxturinn var umfram væntingar markaðsaðila sem gerðu að meðaltali ráð fyrir 0,8% aukningu í júlí. Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að markaðsaðilar eru orðnir langþreyttir á biðinni eftir raunverulegri hagvaxtaraukningu í Þýskalandi en þessar tölur kynda nokkuð undir vonir um bata á árinu. Hans Eichel, fjármálaráðherra landsins, sagði þegar hann var að kynna ríkisfjárlög ársins 2005 að bjartari tímar væru framundan fyrir þýska hagkerfið og benti á að spár gerðu nú ráð fyrir 1,5-2,0% hagvexti á árinu.

Drifkraftur þýska hagkerfisins um þessar mundir er útflutningsiðnaðurinn, sem hagnast einkum á mikilli eftirspurn frá Bandaríkjunum og Austur-Asíu. Einkaneysla hefur hins vegar verið afar kraftlítil og ljóst er að þýskir neytendur þurfa að taka verulega við sér áður en hagvöxtur kemst á eitthvað skrið. Bati á þýskum vinnumarkaði myndi hafa jákvæð áhrif á einkaneyslu en sá bati lætur enn sem komið er bíða eftir sér.