Sænska eignarhalds- og fjárfestingarfélagið Industrivarden, sem seldi nýlega hlut sinni í stoðtækjafyrirtækinu Össuri, hagnaðist um 398 milljónir sænskra króna á þessari fjárfestingu sinni eða um 3 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Industrivarden sem var fyrsta erlenda félagið til að taka stöðu í Össuri árið 2002 náði að ávaxta fjármuni sína í félaginu um 90% á tímabilinu. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag.

Í tilkynningu frá Industrivarden kemur fram að nú í byrjun nóvember námu hreinar eignir félagsins um 46 milljörðum sænskra króna eða um 344 milljörðum íslenskra króna. Félagið hefur náð að ávaxta fjármuni hluthafa sinna ágætlega á þessu ári en nettó eignir á hlut námu 236 SEK 4. nóvember síðastliðinn samanborið við 189 SEK í byrjun ársins.

Fyrirtækið segir að hagkerfi heimsins hafi haldið áfram að vaxa á þriðja ársfjórðungi. Vöxtur í Bandaríkjunum hefur haldið áfram að vera mikill. Sama á við um Suðaustur-Asíu en þar er vöxturinn dreginn áfram af miklum vexti í Kína. Svo virðist sem að Japan sé einnig að taka við sér eftir 15 ára tímabil verðhjöðnunar og stöðnunar.