Indverski seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti um 0,25 prósentur og fóru vextir við það í 7,75%. Þetta er annað skiptið á jafn mörgum mánuðum sem vextir eru hækkaðir. Breska ríkisútvarpið (BBC) segir bankastjórn indverska seðlabankans berjast við að halda verðbólgu í skefjum. Hún mældist 6,46% í september síðastliðnum.

BBC hefur eftir seðlabankastjóranum Raghuram Rajan að mikilvægt sé að koma böndum á verðbólguna í skugga veiks hagvaxtar. Rajan settist í stól seðlabankastjóra í síðasta mánuði og lét hann það verða sitt fyrsta verk að hækka stýrivexti. Vaxtahækkunin kom á óvart, að sögn BBC.