Indverska hagkerfið er nú orðið stærra en það breska samkvæmt nýjustu mælingum. Það er í fyrsta sinn í hundrað ára sem að indverska hagkerfið er stærra en það breska. Eins og flestir vita var Indland áður hluti af nýlenduveldi Breta. Indverska hagkerfið er nú því það sjötta stærsta í heimi, ef tekið er mið á vergri landsframleiðslu á eftir Bandaríkjunum, Kína, Japan, Þýskalandi og Frakklandi. Bretar detta því niður í sjöunda sæti listans. Frá þessu er greint í frétt Forbes um málið.

Indverska hagkerfið hefur vaxið hratt á undanförnum árum en samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er gert ráð fyrir því að hagkerfi Indverja komi til með að vaxa um 7,6% á næsta ári. Hins vegar hefur útganga Breta úr Evrópusambandinu áhrif á hagvöxt landsins að minnsta kosti til skemmri tíma.

Búist var við því að indverska hagkerfið yrði stærra en það breska árið 2020, en vegna 20% veikingar pundsins og miklum vexti í Indlandi, hefur breytingin nú þegar átt sér stað. Við því er búist að munurinn á hagkerfum ríkjanna tveggja eigi eftir að koma til að stækka enn frekar, þar sem að spáð er að indverska hagkerfið vaxi um 6 til 8% á næstu árum, en hið breska um 1 til 2%.

Innanríkisráðherra Indlands, Kiren Rijiju fagnar fregnunum, en bætir þó einnig við að mannfjöldinn í Indlandi hafi sitt að segja þegar verg landsframleiðsla sé reiknuð. Ef að skoðað er verga landsframleiðslu á mann, þá er Indland enn eitt af fátækari ríkjum heims, en Bretar eitt af því ríkustu.