Hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir, landslagsarkítekt, og Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa, hafa veitt 500 þúsund Bandaríkjadali (rúmlega 36 milljónir íslenskra króna) til stuðnings menntaverkefnis Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í hinu fátæka og stríðshrjáða Afríkulandi Síerra Leóne, segir í fréttatilkynningu.

Á fimmta þúsund börn fá tækifæri til að ganga í skóla vegna framlagsins. Í landi þar sem aðeins 42% barna stunda nám er þetta mjög mikilvægur stuðningur, segir í tilkynningunni.

Ingibjörg og Ólafur fóru í fjögurra daga ferð til Síerra Leóne í lok febrúar til að sjá með eigin augum þann árangur sem menntaverkefni UNICEF hefur skilað síðustu árin og í framhaldinu ákváðu þau að leggja sitt af mörkum. Með í för var tíu ára sonur þeirra, Ólafur Orri Ólafsson, og Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Ingibjörg og Ólafur hafa lengi látið sig mannúðarmál varða. Ólafur situr í stjórn Rauða kross Íslands og Ingibjörg er fulltrúi í stjórn UNICEF Ísland. Fjölskyldan er búsett í Bretlandi.

Framlag Ingibjargar og Ólafs vekur mikla athygli í Síerra Leóne og allir helstu fjölmiðlar landsins hafa fjallað um það. Síerra Leóne vakti ekki síður athygli og áhuga þeirra. Þau hjón hafa ferðast nokkuð um ýmis svæði Afríku og segir Ingibjörg þau hafa heillast af þessum heimshluta.

?Fólkið, landslagið og náttúran, litirnir og birtan og síðast en ekki síst dýralífið ? allt er þetta mjög sérstakt. Við höfum ferðast með tvö yngri börnin okkar, sem eru 10 og 14 ára, og þau hafa heillast með okkur. Lífsskilyrðin eru að sjálfsögðu mjög misjöfn en það sem vakti athygli okkar voru auðvitað hin bágu kjör sem fólk lifir við og hvað þarf í raun litla fjármuni til að gjörbreyta möguleikum fólks til að bjarga sér sjálft.?

Ætlunin er að nota gjöfina til að byggja 40 skóla í sveitum landsins og gera um 4.500 börnum á aldrinum sex til níu ára kleift að öðlast góða þriggja ára menntun. Styrkurinn verður einnig nýttur til að útvega skólagögn, byggja vatns- og hreinlætisaðstöðu við skólana og þjálfa 100 kennara.

Náminu er meðal annars ætlað að hvetja börnin til áframhaldandi skólagöngu og mun verkefnið auka verulega þekkingu og menntun í þeim tólf héruðum sem það nær til.