Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir hefur verið ráðin sem sölu- og markaðsstjóri hjá Keldunni. Um nýtt starf er að ræða samkvæmt tilkynningu Keldunnar og mun Ingibjörg m.a. sjá um mótun framtíðarstefnu félagsins í sölu- og markaðsmálum, markaðssetningu á vörum og þjónustu þess sem og umsjón núverandi viðskiptatengsla og öflun nýrra.

Ingibjörg starfaði síðast sem markaðsstjóri Pennans og Eymundsson og gegndi áður stöðu forstöðumanns markaðssviðs hjá Sparisjóðnum á árunum 2004-2009.

Ingibjörg Ásta lauk MBA námi úr Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur úr sama skóla með BSc gráðu í alþjóðamarkaðsfræði árið 2002.

Keldan var stofnuð á haustdögum 2009 og er upplýsingavefur fyrir íslenskt viðskiptalíf. Keldan veitir meðal annars aðgang að öllum helstu skrám sem reknar eru af opinberum aðilum á Íslandi.  Þá rekur Keldan; Vaktarann, Dagatal viðskiptalífisins og hefur með höndum þjónustu vegna innlánamarkaðar H.F. Verðbréfa.