Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, var kosinn formaður Isavia á aðalfundi félagsins og dótturfélaga í dag. Hann tekur við formannsstólnum af Þórólfi Árnasyni.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fer með eignarhald á Isavia fyrir hönd ríkisstjóðs og var það hans að mæla með stjórnarformanni. Á sama tíma og Ingimundur tók við af Þórólfi var sömuleiðis öðrum stjórnarmönnum skipt inn á fyrir síðustu stjórn. Þórólfur sagði í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag að oftar en ekki væru gerðar breytingar á skipan stjórnarinnar. Hann og stjórnin myndi engu að síður gefa kost á sér áfram.

Einn situr áfram

Nýir stjórnar menn eru Matthías Páll Imsland, fyrrverandi forstjóri Iceland Express og aðstoðarmaður Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem jafnframt verður varaformaður stjórnarinnar, Heiða Kristín Helgadóttir hjá Bjartri framtíð, og Sigrún Traustadóttir. Ragnar Óskarsson, fyrrum varaformaður stjórnar Isavia, situr áfram. Hinir sem hætta eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Ólöf Kristín Sveinsdóttir og Jón Norðfjörð.

Jón Norðfjörð var kosinn til að setjast í varastjórn ásamt þeim Friðbjörgu Matthíasdóttur, Jens Garðari Helgasyni, , Sigurbirni Trausta Vilhjálmssyni og Tryggva Haraldssyni.