Unnur Brá Konráðsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðir til að hvetja til fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir þrenns konar aðgerðum til að auðvelda fjárfestingu erlendra aðila. Í fyrsta lagi verði sett rammalöggjöf um fjárfestingar erlendra aðila, í annan stað verði gerð áætlun um orkuafhendingu til að minnsta kosti fimm ára, og í þriðja lagi verði lagaákvæði um ferli mats á umhverfisáhrifum endurskoðað. Lagt er til að vegna mikilvægis þessara aðgerði skuli þær hafa komið til framkvæmda eigi síðar en 1. ágúst næstkomandi.

Stjórnsýslan má ekki þvælast fyrir

Í greingargerð með tillögunni segir að aldrei í sögu lýðveldisins hafi verið meiri þörf fyrir atvinnuuppbyggingu og gjaldeyrisskapandi iðnað en nú. Erlendir aðilar hafi sýnt mikinn áhuga á að koma að orkufrekum verkefnum hér á landi en þeir reki sig á ýmsa tálma í íslenskri stjórnsýslu. „Stjórnsýslan má ekki þvælast fyrir þegar kemur að uppbyggingu atvinnulífsins - það seinkar endurreisninni,“ segir í greinargerðinni.

Fjárfestingarsamningar með reglugerð en ekki löggjöf

Lagt er til að með rammalöggjöf um erlendar fjárfestingar þurfi ekki að fara með fjárfestingarsamninga fyrir Alþingi heldur mætti útfæra einstök atriði í reglugerð. Þetta myndi flýta ferlinu til muna frá því sem nú sé.

Um uhverfismatið segir að ferlið virðist í einstökum tilfellum mun lengra og þokukenndara en víðast hvar annars staðar og þetta hafi stuðlað að því að fjárfestar hafi horfið með gríðarlega mikilvæg atvinnufyrirtæki til annarra landa.