Fjölmiðlamaðurinn Ingvi Hrafn Jónsson á sjónvarpsstöðinni ÍNN vill að slitastjórn Glitnis samþykki tæplega 30 milljóna króna kröfu hans í þrotabú bankans. Krafan er til komin vegna kaupa Glitnis haustið 2007 á veiðileyfum í Langá á Mýrum í Borgarfirði í þrjár vikur á besta tíma sumarið 2008. Ingvi Hrafn og kona hans réðu þá yfir ánni. Bankinn keypti samtals 34 stangir um sumarið í júní, júlí og í ágúst.

Starfsmenn bankans afpöntuðu veiðileyfin um páskana árið 2008 og barst engin greiðsla frá bankanum. Þegar þá var komið við sögu var tekið að halla á fjármálamarkaði og treysti enginn sér til að kaupa veiðileyfin sem Glitnir hafði tryggt sér. Í fyrstu viku október árið 2008, tæpum tveimur mánuðum eftr að starfsmenn Glitnis áttu að kasta í ánni, fór bankinn í þrot. Ingvi Hrafn sat því ekki aðeins eftir með óselda daga í ánni heldur enga borgun fyrir veiðileyfin og taldi sig hafa orðið af tæpum 30 milljónum króna.

Málið Ingva Hrafns gegn Glitni verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.