Nýr matreiðslu- og veitingahúsaþáttur er að hefja göngu sína á sjónvarpsstöðinni ÍNN í umsjón Magnúsar Inga Magnússonar matreiðslumeistara og veitingamanns á Sjávarbarnum og Panorama Restaurant.

Þættirnir verða á dagskrá á mánudögum kl. 20.30 og verður sá fyrsti frumsýndur 11. janúar nk.

Í þáttunum heimsækir Magnús Ingi kollega sína á veitingahúsin sem þeir starfa á og fylgist með þeim elda á sínum heimavelli. Veitingahúsin sem sótt eru heim í fyrstu þáttunum eru Perlan, Veisluturninn, Austurindíafjelagið, Sjávarbarinn og Gallery Restaurant á Hótel Holti.

Kokkarnir reiða fram spennandi rétti fyrir fjóra sem áhorfendur eiga að ráða við að elda heima hjá sér. Fylgst er með elduninni skref fyrir skref og farið yfir aðferðirnar. Magnús Ingi spjallar við matreiðslumeistarana um hugmyndafræði þeirra og bakgrunn, veitingahúsið og stefnu þess og fer ítarlega yfir háefnið, aðferðirnar og réttina sem þeir bera á borð.

Uppskriftirnar og eldunarleiðbeiningar verða birtar á vef Panorama Restaurant, panoramaice.is, auk þess sem hægt er að nálgast þættina sjálfa á vef ÍNN, inntv.is.

Þess má geta að ÍNN býður eingöngu upp á íslenskt sjónvarpsefni í opinni dagskrá án nokkurs opinbers stuðnings.