Fjárveiting til framkvæmda hjá Vegagerðinni í fjárlögum ársins 2009 er tæpur 21 milljarður, en heildarfjárveiting til vegamála er 32 milljarðar króna. Að mati Hreins Haraldssonar vegamálastjóra vantar 5 milljarða króna upp á að hægt sá að standa við fyrri áætlun áranna 2007-2010.

Í mesta lagi sex til sjö milljarðar af þessum 21 milljarði mun nýtast til nýrra framkvæmda þegar búið er að taka frá fé vegna verkefna sem þegar eru í gangi og verðleiðréttinga á þeim að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag.

Hreinn greinir frá því nýjustu Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar að Vegagerðin hafi metið stöðu verka út frá áramótastöðu þeirra og þeirri verðlagsþróun sem orðið hefur. Er það mat hennar að fjárþörf þessara verkefna á árinu 2009 sé um 14 milljarðar. Nokkur óvissa er samt ríkjandi varðandi þessar tölur.

Þótt Vegagerðin hafi verðbætt svo til öll verk á síðasta ári eru háværar kröfur um enn hærri verðbætur í sumum stærstu verkanna.

Einnig er mikil óvissa um verðlagsþróun á árinu. Þannig gæti fjárþörfin verið meiri en þetta mat segir til um. Miklar líkur eru því að á fjármagn til nýframkvæmda verði enn minna en þær 6-7 þúsund milljónir sem Vegagerðin vonast til að geta lagt í ný útboðsverk á þessu ári. Vegna þeirra verka sem þegar eru í gangi verður árið 2009 eigi að síður annað mesta framkvæmdaár í sögu vegagerðar á Íslandi frá upphafi á eftir árinu 2008

„Óhjákvæmilegt er að fresta einhverjum af þeim verkefnum sem voru á áætlun 2008 og 2009 bæði vegna lægri fjárveitinga og vegna þess að verðbólgan hefur gert þau verk sem eru í vinnslu mun dýrari en ætlað var. Vonir standa til að í flestum tilfellum komist þessi verkefni á dagskrá 2010 þótt engin vissa sé fyrir því eins og er. Áfram verður unnið að hönnun og öðrum undirbúningi og ekkert verkefni lagt til hliðar." segir Hreinn í grein sinni.

Vegagerðin hóf á ný að bjóða út verk á dögunum eftir að útboðsstoppi sem verið hefur í gildi frá því snemma í haust var aflétt. Vonaðist Vegagerðin til að með afléttingu útboðsbannsins gætu hjólin farið að snúast á ný hjá jarðvegsverktökum. Fall ríkisstjórnarinnar á mánudag kann þó að setja þetta mál að nýju í uppnám.

Hreinn bendir á að tilmæli séu um að horfa einkum til verkefna á suðvesturhorni landsins vegna atvinnuástandsins og ekki síst þeirra verka sem eru mannaflsfrek. Ekki sé því ólíklegt að um helmingur fjármagns til nýframkvæmda renni til þessa landshluta, eða 3 til 3,5 milljarðar króna. Annað skiptist á önnur landsvæði.

Vegagerðin hefur aðeins auglýst eitt útboð á þessu ári, þ.e. Rangárvallaveg, en það útboð var dregið til baka eftir auglýsingu í október. Þá er kynnt að annað verk, Vestfjarðavegur, Vatnsfjörður - Kjálkafjörður, verði formlega auglýst næsta mánudag, 2. febrúar.

Á sama tíma verða líka kynnt fleiri verkefni sem boðin verða út á næstu vikum. Stefnt er að því að bjóða sem flest verkanna út á næstu þremur til fjórum mánuðum til að nýta sem mest af sumartímanum til framkvæmda,