Þrátt fyrir að sérstök bindiskylda á innflæði erlends gjaldeyris í skuldabréfakaup (innflæðishöft) hafi verið sett niður í núll er óhætt að segja að innflæði inn á ríkisskuldabréfamarkaðinn hafi lítið tekið við sér ef undan er skilin tímabundin aukning í marsmánuði þegar innflæðið nam 9,5 milljörðum. Frá árinu 2015 hefur innflæði inn á ríkisskuldabréfamarkaðinn numið um 123,5 milljörðum króna en 82,2 milljarðar af því fjármagni komu inn frá júní 2015 til júní 2016 en dróst svo verulega saman eftir að innflæðishöftin voru sett á sumarið 2016.

Frá júní 2016 til loka september í ár nam innflæði inn á markaðinn 41,2 milljörðum en við það bætist 14,1 milljarður sem kom inn í sérstaka bindiskyldu. Innflæði á ríkisskuldabréfamarkaðinn hefur vissulega tekið við sér það sem af er ári en það nam 19,5 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins og jókst um 16,2 milljarða frá sama tímabili í fyrra. Innflæðið verður þó að teljast lítið í ljósi þess að stærð skuldabréfaflokka gefinna út af ríkinu er samtals um 640 milljarðar króna auk þess sem ríkisvextir eru töluvert hærri hér á landi en í löndunum í kringum okkur þrátt fyrir vaxtalækkanir síðustu missera.

Agnar Tómas Möller, forstöðumaður skuldabréfa hjá Júpiter, segir að nokkrar ástæður séu fyrir því að innflæði inn á skuldabréfabréfamarkaðinn hafi ekki aukist mikið þrátt fyrir losun innflæðishafta. „Í fyrsta lagi vorum við með innflæðishöft mjög lengi sem varð til þess að íslenski skuldabréfamarkaðurinn datt að mörgu leyti út af radarnum hjá erlendum fjárfestum. Í öðru lagi skipti það máli að líkast til hefur saga tíðra hafta leitt til þess að ákveðinnar tortryggni hefur gætt í garð Seðlabankans, hvað hann kann að gera og þess að fjárfesta í skuldabréfum á Íslandi. Það mun því taka tíma fyrir erlenda fjárfesta að fá traust á markaðnum.“

Að sögn Agnars höfðu tíðindi af væntum samdrætti í hagkerfinu einnig áhrif á að fjárfestar hafi ekki látið sjá sig í meira mæli þrátt fyrir afnám innflæðishafta. „Þrátt fyrir að undirstöður í hagkerfinu séu góðar, ríkið skuldar lítið og vaxtamunurinn er töluverður þá hafði það áhrif að í apríl voru fréttir héðan á þá leið að landsframleiðsla væri að fara að dragast saman og undirstöður krónunnar væru að veikjast. Erlendir aðilar eru lítið í að fjárfesta í vaxtamun í hagkerfum sem eru að dragast saman. Þeir eru frekar að fjárfesta á stöðum þar sem hagkerfin eru að hitna, vextir eru að hækka og gjaldmiðillinn líklegur til að styrkjast.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .