*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 14. febrúar 2006 09:17

Innflutningur hefur aukist um 41% á 12 mánuðum

Ritstjórn

Samkvæmt bráðabirgðatölum um innheimtu virðisaukaskatts reyndist vöruinnflutningur nema um 25,5 milljörðum króna í janúar. Tólf mánaða hækkun, miðað við þriggja mánaða staðvirt meðaltal var því um 41%.

Innflutningur dregst yfirleitt saman í janúarmánuði út af lokum jólaverslunar en í ár gekk það ekki eftir. Innflutningur jókst nokkuð milli desember og janúar eða um 2,5 milljarða en án skipa og flugvéla var aukning nokkuð minni. Mikilvægur þáttur í auknu innflutningsverðmæti milli mánaða eru kaup á eldsneytisbirgðum.

Að auki jókst innflutningur á unnum rekstrarvörum. Talsvert minna var flutt inn af neysluvörum í janúar en þar er á ferðinni árstíðarsveifla í kjölfar jólaverslunar. Innflutningur á bifreiðum stóð í stað en telst þó enn vera á nokkuð háu stigi miðað við innflutning fyrri ára. Nokkur aukning var hins vegar í innflutningi á flutningstækjum til atvinnurekstrar. Innflutningur á fjárfestingarvörum minnkaði aðeins frá því í desember 2005 en er þó talsvert meiri en hann var í janúar 2005.

Á heildina litið virðist innflutningur enn vera nokkuð mikill í janúar og sýnir ekki mörg merki um að minnka í bráð. Almennt séð er þó gert ráð fyrir hægari vexti innflutnings á árinu, í takt við þróun stóriðjuframkvæmda og vænta gengislækkun krónunnar.