Tíu mínútur liðu þar til frumvarp um tímabundnar breytingar á lyfjalögum var lagt fram á Alþingi og þar til það var samþykkt sem lög. Frumvarpið veitir Lyfjastofnun tímabundna heimild til að leggja bann við því að lyfjaheildsalar og markaðsleyfishafar selji eða flytji tilteknar birgðir lyfs úr landi þegar fyrirséð er að útflutningur geti skapað skort á lyfinu þannig að þó ógni heilsu manna eða dýra.

Frumvarpið var lagt fram af velferðarnefnd þingsins og tekið inn á dagskrá með afbrigðum eftir að óundirbúnum fyrirspurnatíma lauk. Mælt var fyrir frumvarpinu með tæplega fimm mínútna framsöguræðu og málið sent þaðan til velferðarnefndar til umfjöllunar.

Tveimur mínútum síðar hafði velferðarnefnd lokið yfirferð sinni og gekk málið til annarrar umræðu. Enginn tók til máls og var umræðunni lokið með snöggri atkvæðagreiðslu. Boðað var strax til nýs þingfundar, þriðja umræða keyrð af stað klukkan 15.10 og lauk henni áður en klukkan sló 15.11. Lög samhljóða frumvarpinu voru þá komin í gegn.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að með því sé brugðist við svokölluðum samhliða útflutningi. Þar segir enn fremur að frumvarpið feli í sér inngrip á markað, sem skilgreina megi sem takmörkun á frjálsu flæði vöru yfir landamæri, en engu að síður þyki nauðsynlegt að stjórnvöld hafi slíka heimild.

Samkvæmt EES-samningnum er yfirvöldum heimilt að „leggja […] á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila.“ Ákvæði samhljóða nýsamþykktu bráðabirgðaákvæði er að finna í frumvarpi til nýrra lyfjalaga sem er til meðferðar á þinginu.

„Frumvarpið hefur verið samið með það að leiðarljósi að efni þess samræmist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, einkum að því er varðar vernd eignarréttar, atvinnufrelsi og bann við mismunun. Rétt er að undirstrika að frumvarpið felur ekki í sér yfirfærslu eignarréttar. Þó má segja að með því að kveða á um takmörkun á ráðstöfunarrétti lyfjaheildsala og markaðsleyfishafa eru settar skorður varðandi val á kaupanda lyfja. Takmarkanir sem í frumvarpinu felast varða því fyrst og fremst ákvörðunarrétt um hvenær og hverjum þessir aðilar geta selt þau lyf sem Lyfjastofnun ákveður,“ segir í greinargerðinni.

Umrætt bráðabirgðaákvæði gildir til loka þessa árs en lögin taka þegar gildi. Ætla má að handhafar forsetavalds, það er forseti þingsins, forseti Hæstaréttar og forsætisráðherra, komi saman á næstu dögum til að kvitta undir lögin og senda þau til birtingar í Stjórnartíðindum en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, fór til útlanda í upphafi viku samkvæmt tilkynningu sem birt var í Stjórnartíðindum í gær.