Samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir janúar til október (báðir meðtaldir) nam handbært fé af rekstri ríkissjóðs um 51,2 milljörðum króna sem er 2,4 milljarða króna aukning frá sama tíma í fyrra. Hreinn lánsfjárjöfnuður er neikvæður um 11,9 milljarða króna sem er 58,6 milljörðum lakari útkoma en í fyrra.

Það skýrist að mestu leyti af 30,3 milljarða króna kaupum ríkissjóðs á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun og eiginfjáraukningu Seðlabanka Íslands með 44 milljarða króna eiginfjárframlagi. Tekjur án eignasölu reyndust  39,4 milljörðum krónum meiri en á sama tíma á síðasta ári.

Í frétt á vef Fjármálaráðuneytisins segir að innheimtar tekjur ríkissjóðs hafi numið 354 ma.kr. á fyrstu tíu mánuðum ársins. Það er 45,6 ma.kr aukning frá sama tíma í fyrra, eða 13% sé óreglulegum tekjum sleppt. Ef tekið er tillit til tilfærslu milli mánaða vegna tekjuskatts lögaðila í ársbyrjun 2006 nemur aukningin 16%.  Skatttekjur og tryggingagjöld jukust um 13,2% að nafnvirði. Á sama tíma hækkaði almennt verðlag um 5% og raunaukning skatttekna og tryggingargjalda var því 7,8%.