Innlán í íslenskum bönkum hafa dregist saman um 11,5% frá því í mars í fyrra. Þá voru þau 1.640 milljarðar króna en samkvæmt nýjustu hagtölum Seðlabanka Íslands nemur heildarumfang innlána í janúar 2011 1.452 milljörðum króna. Því hafa þau lækkað um 188 milljarða króna. Þessi samdráttur á sér stað á sama tíma og í gildi er 100% trygging á öllum innstæðum í íslenskum bönkum og ströng gjaldeyrishöft sem hindra útstreymi fjármagns úr landi.

100 milljarðar út hjá heimilum

Heimili og einstaklingar hafa tekið mest allra út úr bankakerfinu af innlánum sínum. Sá hópur átti 733,6 milljarða króna á innlánsreikningum í mars í fyrra en 635,8 milljarða króna í lok janúar 2011. Þar munar um 97,8 milljarða króna og því ljóst að helmingur þess fjár sem runnið hefur út af innlánsreikningum tilheyrir þessum hópi.

Þá minnkuðu innstæður eignarhaldsfélaga einnig töluvert. Þær námu 148,4 milljörðum króna fyrir ári en voru 116,6 milljarðar króna í byrjun þessa árs. Þær minnkuðu því um 31,8 milljarða króna á tíu mánaða tímabili. Eini aðgreindi aðilinn sem bætir við innlánsstöðu sína er ríkissjóður. Innlán hans jukust um 3 milljarða króna og standa nú í 23 milljörðum króna.

Leita annarra leiða

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er ástæða þess að innlend innlán hafa verið að dragast saman sú að það hefur verið meiri hreyfing á stærri innlánum. Með öðrum orðum virðast þeir sem eiga stórar fjárhæðir vera farnir að leita annarra leiða við að ávaxta fé sitt en að geyma það á innlánsreikningum. Á meðal þeirra leiða eru meðal annars uppkaup á íslenskum fyrirtækjum eða fasteignum. Þá hafa innlánsvextir viðskiptabankanna verið að lækka og hagnaður þeirra af vaxtamun að sama skapi að aukast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.