Innlán jukust um 50% hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga á síðasta ári og eru nú komin yfir sjö milljarða. Þetta kemur fram í þingeyska héraðsfréttablaðinu Skarpi, sem kom út í síðustu viku. Til samanburðar námu heildarinnlán Sparisjóðs Suður-Þingeyinga 1,8 milljarði árið 2006. Rúmlega 42 milljóna króna halli var rekstri sparisjóðsins í fyrra eftir skatta samkvæmt ársreikningi. Í viðtali við Skarp segir Ari Teitsson, stjórnarformaður sjóðsins, að skýringuna á hallarekstri megi öðru fremur rekja til afskrifta á eignum.

Sparisjóður Suður-Þingeyinga var annar tveggja sjóða sem ekki þurfti á eiginfjárframlagi að halda frá ríkinu, skömmu eftir hrun. Hinn var Sparisjóður Strandamanna. Nær algjör niðurfærsla á stofnfé í flestum sparisjóðum landsins og hrun Byrs og SpKef eykur þó á óvissu um rekstur sparisjóða.

Í Skarpi er Ari spurður hvernig gangi að ávaxta innlánin sem í sjóðnum eru. Útlán til viðskiptaaðila eru sögð nema tæplega þremur milljörðum, afgangurinn er í annarri ávöxtun og þá mest í Seðlabankanum. “Enn sem komið er er þar viðunandi ávöxtun þannig að reksturinn það sem af er þessu ári virðist í góðu lagi […]Stjórn sparisjóðsins hefur miklar áhyggjur af því að allt stoðkerfi sparisjóðanna, tölvukerfi, heimabankar, markaðsmálin og fleira er í sameiginlegum félögum sem nú eru algjörlega lömuð fjárhagslega. Þetta kallar því á breytingar á fyrirkomulagi stoðþjónustunnar, hver sparisjóður fyrir sig getur ekki annast þessi mál, þarna verður að vera samvinna. Við erum því að horfa til samstarfs við önnur fjármálafyrirtæki, en það er ekkert ákveðið í þeim efnum,” segir Ari. Sparisjóður Suður-Þingeyinga byggir í grunninn á gömlum merg, hann er samansettur af fimm sparisjóðum í sýslunni og elstur þeirra Sparisjóður Kinnunga, sem var stofnaður 1889.