*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 15. febrúar 2019 15:12

Innlend kortavelta dregst saman

Í janúar dróst kortavelta í verslun innanlands saman um 4,9% milli ára, mælt á föstu verðlagi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Árið 2018 jókst innlend greiðslukortavelta í verslun um alls 3,0% milli ára, mælt á föstu verðlagi. Þetta er minnsti vöxtur greiðslukortaveltu milli ára frá árinu 2013, þá jókst veltan um 0,6%. Kortavelta í verslun er góður mælikvarði á einkaneyslu ársins og hefur verið töluverð fylgni milli breytinga í kortaveltu og einkaneyslu undanfarin ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Í janúar dróst kortavelta í verslun innanlands saman um 4,9% milli ára, mælt á föstu verðlagi. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem kortavelta í verslun innanlands dregst saman og þarf að fara aftur til áramóta 2012 / 2013 til að finna svipaða þróun.

Vekur magn samdráttarins athygli hagfræðideildarinnar, en 4,9% samdráttur er mesti samdráttur í þessum lið frá febrúar 2013. Erfitt sé að segja til með mikilli vissu um ástæður þessa samdráttar. Þó megi leiða líkur að því að samdráttinn megi rekja til óvissu um ástandið á vinnumarkaði um þessar mundir. Tveir þættir spili þar rullu: Í fyrsta lagi hafi opinber umræða frá því í haust bent til þess að yfirvofandi gætu verið meiri átök á vinnumarkaði en sést hafa um áratuga skeið. Slíkt ástand líkt og önnur óvissa virki almennt neysluletjandi á heimilin. Í öðru lagi hafi atvinnuleysi verið á uppleið undanfarna mánuði. Atvinnuleysið var 2,3% í september síðastliðnum, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, en hefur farið vaxandi og mælist nú 3,0% í janúar. Aukið atvinnuleysi hafi eins og gefur að skilja neikvæð áhrif á neyslugetu heimilanna.

Stikkorð: Landsbankinn kortavelta Hagsjá