Rússneska félagið IcePro LLC mun standa á bak við framleiðslu á Ísey Skyri í Rússlandi, en vígsluathöfn í tilefni af upphafi framleiðslunnar fór fram í dag. Félagið er í meirihlutaeigu Kaupfélags Skagfirðinga, en vörumerkið Ísey Skyr er í eigu Mjólkursamsölunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Mjólkursamsölunni.

IcePro hefur samið við rússneska mjólkurframleiðandann, Lactika JSC, um framleiðslu og dreifingu á skyrinu undir sérleyfissamningi við Mjólkursamsöluna.

Stefnt er á að skyrið verði komið í hillur nokkurra verslunarkeðja í Moskvu og Pétursborg um næstu mánaðamót.

IcePro hefur sett sér það markmið að ná 5.000 tonna ársframleiðslu fyrir rússlandsmarkað innan þriggja ára. Til samanburðar eru framleidd árlega um 3.000 tonn af skyri á Íslandi.

Heildarfjárfesting innlendra og erlendra fjárfesta í þessu verkefni nemur um 500 milljónum íslenskra króna.

„Það er sérstakt ánægjuefni fyrir Mjólkursamsöluna að þessum áfanga séð náð. Vörumerkið Ísey Skyr er á mikilli siglingu um heiminn og Rússland er 150 milljón manna markaður, sem bætist nú við markaði eins og Bandaríkin, Norðurlöndin, Bretland, Sviss, Ítalíu, Benelux löndin svo eitthvað sé nefnt. Við erum full bjartsýni á gengi skyrsins í Rússlandi enda varan sem þeir eru að framleiða hér frábær og stenst okkar ýtrustu gæðakröfur.“ er haft eftir Ara Edwald, forstjóra MS, í tilkynningunni.