Jyske Bank í Danmörku hefur áhyggjur af efnahagsþróuninni á Íslandi og hefur gefið út greiningu á íslenska hagkerfinu sem ber yfirskriftina: Ísland brennandi heitt!

Jyske Bank varar jafnframt fjárfesta við að íslenska krónan sé mjög viðkvæm um þessar mundir og mælir með að fjárfestar losi stöður sínar í íslenskum skuldabréfum þar sem áhættuálag á þeim hefur hækkað undanfarin mánuð.

Jyske Bank telur að íslenska krónan geti auðveldlega tekið aðra dýfu líkt og gerðist þann 21. febrúar síðastliðinn þegar skýrsla Fitch Ratings kom út þar sem horfum fyrir langtíma lánshæfismat ríkissjóðs var breytt frá stöðugum í neikvæðar. En krónan lækkaði um 5,5% í kjölfarið.

Í greiningu Jyske Bank er kannað hvort að uppgangurinn sem hefur verið í hagkerfinu undanfarið hér á landi sé of hraður og hvort ofhitnun hagkerfisins með tilheyrandi afleiðingum sé yfirvofandi. Jyske Bank kemst að því að í greiningu sinni að margt bendi til þess að um ofhitnum sé að ræða og vísar þá til dæmis til þess að uppsveiflan sé að miklu leyti drifin af þenslu á fasteignamarkaði, erlendir bankar hafa byrjað að gefa út skuldabréf í íslenskum krónum og stærð og umfang fjárfestinganna í áliðnaði sé gríðarlegur.

Jyske Bank spáir að vegna þenslunar mun Seðlabanki Íslands ekki eiga neina aðra kosti en að halda áfram að hækka stýrivexti og spáir að vextir muni hækka enn frekar 31. mars og verða 11%.

Niðurstaða Jyske Bank er sú að íslenska hagkerfið sé klárlega of heitt og þurfi að róast niður til að tryggja megi áframhaldandi hagvöxt á Íslandi og forðast harða lendingu. Að mati Jyske Bank mun framtíð hagkerfisins velta að mestum hluta á því hversu stórar og margar álversframkvæmdir verða á komandi árum.