Í niðurstöðum evrópskrar rannsóknar á rýrnun í smásöluverslun, sem náði til 25 landa, kemur í ljós að rýrnun í íslenskum verslunum vegna þjófnaða og innri mistaka nemur 1,1% af veltu eða 2 milljörðum kr. á ári. Ef innri mistök (12,2%) eru undanskilin og aðeins litið á þjófnað að viðbættum kostnaði sem verslanir verja til öryggismála og samfélagslegum kostnaði dómskerfis og lögreglu vegna búðaþjófnaða, má ætla að hver Íslendingur þurfi að greiða að jafnaði um 11.000 kr. á ári aukalega vegna þessara glæpa.

Í niðurstöðum European Retail Theft Barometer, sem er heiti rannsóknarinnar, kemur fram að Ísland er eina landið þar sem starfsmenn stela meiru en viðskiptavinir. Hér á landi er 41,3% (um 847 millj. kr.) rýrnunarinnar vegna þjófnaða starfsmanna en að meðaltali í hinum 24 samanburðarlöndunum er þjófnaður starfsmanna 29% af rýrnuninni. Dæmið snýst við þegar kemur að þjófnaði viðskiptavina, því þar er hlutfallið lægst hér á landi, eða 39,1% (um 802 millj. kr.) á móti 47,9% í samanburðarlöndunum í Evrópu.

European Retail Theft Barometer hefur verið birt fimm sinnum og er Ísland núna með í fyrsta sinn. Rannsóknin sýnir að rýrnun hefur farið minnkandi undanfarin þrjú ár, en þjófnaður starfsmanna aukist sl.tvö ár og dregið úr þessari minnkun. Ástæða fyrir minni rýrnun er fyrst og fremst talin sú að verslanir verja sífellt meiru til öryggisbúnaðar og fyrirbyggjandi aðgerða, auk þess sem eftirlitið verður sífellt fullkomnara.