Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í gær rökstutt álit til Íslands vegna þess að landið hefur ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að innleiða þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Frestur EFTA-ríkjanna til að innleiða tilskipunina rann út 1. maí í fyrra.

Hin EFTA-löndin sem eiga aðild að EES-samningnum, Liechtenstein og Noregur, hafa þegar tilkynnt um fulla innleiðingu á þjónustutilskipuninni. ESA vakti athygli á skyldu Íslands til að innleiða tilskipunina með bréfi sem var sent 20. maí í fyrra. Í framhaldi ákvað stofnunin að hefja formlega málsmeðferð. Rökstudda álitið sem sent var í gær er lokaaðvörun til Íslands. Verði ekki gerðar viðeigandi ráðstafanir á næstu tveimur mánuðum getur ESA ákveðið að leggja málið fyrir EFTA-dómstólinn.