Með umsókn sinni um aðild að Evrópusambandinu (ESB) og upptöku evru er langt í frá að Ísland sé á leið í „brennandi hús“. Þvert á móti hefur aðild Íslands í myntbandalaginu aldrei verið brýnni en nú, að mati Össurar Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Hann segir upptöku evru í stað krónu færa aga, eftirlit og stuðning sem sárlega þurfi á að halda við hagstjórn landsins. Hann blæs á þau rök að erfiðleikarnir á evrusvæðinu mæli gegn umsókn Íslands um aðild að ESB. Þau rök eru haldlaus í dag, að hans hans mati.

Össur skrifar grein um aðildarviðræðurnar í Fréttablaðið í dag. Hann segir m.a. að með upptöku evru fáist stöðugleiki í peningamálum, sem ætíð hafi skort hér á landi.

„Þátttaka í myntbandalagi með sameiginlegum gjaldmiðli mun þar að auki færa með sér umtalsverðan efnahagslegan ávinning í formi lægri vaxta, lægra verðlags og minni verðbólgu. Reynsla annarra smáþjóða sýnir að um leið munu fjárfestingar aukast samfara auknum útflutningi og hagvexti,“ skrifar Össur.