Ísland er í 2. sæti á lista Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) yfir takmarkanir á beinni fjárfestingu erlendra aðila í aðildarríkjunum. Einungis Kína leggur meiri hömlur á erlenda fjárfestingu. Á eftir Íslandi koma Rússland og Sádi-Arabía. Listinn var birtur í júní síðastliðnum.

Í frétt Viðskiptaráðs Íslands segir að Ísland hafi skipað sama sæti árið 2006. Orsök slaks árangurs sé því ekki vegna bankahruns og upptöku gjaldeyrishafta, Ísland sé almennt eftirbátur annarra ríkja þegar kemur að umgjörð erlendrar fjárfestingar í alþjóðlegu samhengi.

Viðskiptaráð segir að svo virðist sem erlent fjármagn sé í mörgum tilvikum óvelkomið og að tortryggni ríki gagnvart erlendum fjárfestum. Atburðir síðustu vikna muni ekki efla tiltrú erlendra fjárfesta á Íslandi.