Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að senda fulltrúa á vegum íslenskra stjórnvalda til að taka þátt í alþjóðlegu eftirliti á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Úkraínu. Íslenski fulltrúinn er kominn til Oddessa þaðan sem hópurinn mun ferðast til Krímskaga síðar í dag. Stjórnvöld í Úkraínu hafa boðið þátttökuríkjum í ÖSE að senda eftirlitsmennina til Krímskaga til að kanna aðstæður.

„Það er mikilvægt að sitja ekki við orðin tóm vegna aðgerða Rússa og eftirlit ÖSE ríkjanna er mikilvægt til að leiða í ljós hvernig málum er háttað á Krímskaga. Nú reynir á það fyrirkomulag sem ÖSE hefur þróað til að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum um frið og öryggi. Það er ábyrgð okkar sem þátttökuríki í ÖSE að taka þátt í þessu starfi þegar mest á reynir,“  segir Gunnar Bragi á vef ráðuneytisins.