„Það eru fá rök sem hníga að því að krónan ætti að vera sterk eins og hún er núna, hvað þá að hún eigi eftir að styrkjast enn frekar,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Deildin spáir því að krónan muni veikjast næstu árin, þrátt fyrir áframhaldandi hagvöxt, fjölgun ferðamanna og viðskiptaafgang.

Öfugt við spár Seðlabankans, Hagstofunnar, Landsbankans og Íslandsbanka sem Viðskiptablaðið hefur greint frá , þá telur greiningardeild Arion banka að nafngengi krónunnar muni veikjast um 4,5% næstu tvö árin og raungengið
lækka lítillega.

„Það er mikil þörf fyrir útflæði sparnaðar eftir tíu ár innan hafta, á sama tíma og innflæði er takmarkað og hagvöxtur fer minnkandi. Verðlag á vörum og þjónustu hér á landi í erlendri mynt er með því hæsta, ef ekki það hæsta, sem þekkist í heiminum. Laun á Íslandi eru hærri en víðast hvar annars staðar jafnvel þó að framleiðni sé í meðallagi miðað við þróuð ríki.

Afkoma fyrirtækja í útflutningi hefur versnað og viðskiptaafgangurinn minnkar hratt. Hagkerfið getur einfaldlega ekki staðið undir svo háu raungengi til lengdar öðruvísi en að það grafi verulega undan samkeppnishæfni þjóðar búsins,“ segir Stefán Broddi.

Við slíkar aðstæður muni ferðamenn væntanlega leita á ódýrari áfangastaði og erlend fyrirtæki kaupa vörur og þjónustu annars staðar á lægra verði. Með hliðsjón af sögulegri þróun verðlags og launa á Íslandi telur deildin ólíklegt að verðlag eða laun muni lækka og stuðla að lægra raungengi. Þess í stað muni nafngengið gefa eftir.

Dregur úr gengissveiflum

Frá áramótum er gengi krónunnar nær óbreytt gagnvart meðaltali annarra gjaldmiðla. Borið saman við maí í fyrra hefur krónan veikst um 8,5% og frá því að krónan var hvað sterkust í júní síðastliðnum hefur hún veikst um 11%.

Hún er þó enn tæplega 25% sterkari en hún var fyrir þremur árum. Athygli vekur að meira jafnvægi virðist hafa skapast í fjármagnsstreymi til og frá landinu undanfarna mánuði og sveiflur í gengi krónunnar verið litlar í sögulegu og alþjóðlegu samhengi.

Þegar gjaldeyrishöft voru losuð í mars á síðasta ári og fjármagnshreyfingar að mestu leyti gefnar frjálsar jukust sveiflur í gengi krónunnar til skamms tíma, en frá haustdögum hefur krónan haldið sig á þröngu bili. Eru gengissveiflur nú álíka miklar og þær voru á árunum 2014 til 2016 og heldur minni en í öðrum þróuðum ríkjum og minni myntsvæðum, samkvæmt Seðlabankanum.

Innlendir bankar hafa lítið notað millibankamarkað með gjaldeyri og Seðlabankinn hefur verið óvirkur á gjaldeyrismarkaði undanfarna mánuði. Endurspeglar það að betra jafnvægi í gjaldeyrisstreymi til og frá landinu liggi að baki minna gengisflökti.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð , aðrir geta skráð sig í Áskrift .