Íslandsbanki hækkaði um meira en 5% í tæplega 900 milljóna króna viðskiptum í dag. Hlutabréfaverð Íslandsbanka endaði daginn í 122,5 krónum á hlut og hefur nú hækkað um 55% frá hlutafjárútboði bankans í júní síðastliðnum en útboðsgengið var þá 79 krónur á hlut. Markaðsvirði Íslandsbanka nemur nú 245 milljörðum króna.

Stór meirihluti félaga Kauphallarinnar voru græn í dag. Úrvalsvísitalan náði methæðum í 3.386 stigum eftir 1,6% hækkun í dag en vísitalan hefur hækkað um meira en 60% á einu ári.

Arion banki hækkaði einnig um 1,5% í 920 milljóna veltu. Gengi Arion hefur meira en þrefaldast frá því í byrjun Covid-faraldursins. Mesta veltan var þó með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 2,3% í 1,3 milljarða veltu. Hlutabréfaverð Marels stóð í 964 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar, það hæsta í sögu fyrirtækisins. Marel tilkynnti í byrjun maí um kaup á íslenska hátæknifyrirtækinu Völku sem eru nú til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Eimskip hækkaði náði einnig nýjum hæðum í 414 krónum á hlut en flutningafyrirtækið hefur hækkað um 202% á einu ári.

Icelandair lækkaði um 2,6%, mest allra félaga, í 120 milljóna veltu. Önnur félög sem lækkuðu á í dag voru Iceland Seafood, Síldarvinnslan og Origo.