Íslandsbanki hefur ákveðið að áfrýja fjórum dómum héraðsdóms til Hæstaréttar er varða veðtryggingar fyrir lánum til stofnfjárkaupa. Eru þar á meðal lán sem veitt voru árið 2007 til kaupa á stofnfé í Byr.

Þrír af dómunum sem þegar hafa fallið, hafa fóru á þann veg að aðeins stofnfjárbréfin hefðu verið að veði fyrir lánunum og því gæti bankinn ekki gengið að öðrum veðum. Einn dómur féll hins vegar á þann veg að bankinn gæti fengið meira upp í skuld lántaka en sem nemur stofnfénu.

Uppfært nafnvirði lána Íslandsbanka til stofnfjárkaupa í Byr er um 12 milljarðar króna, um sjö milljarðar til einstaklinga og rúmlega 4,5 milljarðar til fyrirtækja og félaga. Það er um ellefu prósent af eigin fé Íslandsbanka miðað við uppgjör bankans fyrir þriðja ársfjórðung 2010. Þá var eigin fé bankans 105,2 milljarðar og CAD-hlutfallið 22,6%.

Íslandsbanki hefur ekki gefið upp á hvaða verði fyrrnefnd útlán fóru til Íslandsbanka frá Glitni.