Íslandsbanki hefur ákveðið að bjóða húsnæðislán með 4,4% verðtryggðum vöxtum. Um er að ræða lán án uppgreiðslugjalds og með endurskoðunarákvæði á fimm ára fresti. Þessi nýi valkostur bætist við fjölbreytt úrval húsnæðislána í innlendri og erlendri mynt en óhætt er að segja að mikið líf hafi færst í lánamarkaðinn hér á landi undanfarið.

Húsnæðislán Íslandsbanka með föstum vöxtum eru til allt að 40 ára og veðsetningarhlutfall allt að 80% af markaðsvirði, þó aldrei hærra en 100% af brunabótamati. Lánin eru veitt gegn fyrsta veðrétti og er lántökugjald 1%. Skilyrði fyrir þessum kjörum eru að viðskiptavinir séu í almennum bankaviðskiptum við Íslandsbanka og séu þar með Vildarvinir bankans eða Stofnfélagar hjá Sjóvá-Almennum.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að vextir húsnæðislánanna eru endurskoðaðir á fimm ára fresti. Lántakendur eiga því ekki á hættu að lokast inni með lán á hærri vöxtum ef raunvextir lækka hérlendis.
Hægt er að greiða húsnæðislán Íslandsbanka upp án kostnaðar þegar vextir koma til endurskoðunar.

?Með vaxandi þrótti og samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja hafa skapast skilyrði til þess að bjóða hagstæðari húsnæðislán en áður. Íslandsbanki tók forystu í þessum efnum um síðustu áramót með því að bjóða hagstæðari húsnæðislán en áður voru dæmi um í bankakerfinu og síðan höfum við verið að þróa okkar þjónustu enn frekar," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka í tilkynningu frá bankanum.