Kostnaður Íslandsbanka vegna endurskipulagningar lána einstaklinga frá bankahruni nemur 119 milljörðum króna. Kostnaður vegna endurskipulagningar lána fyrirtækja nemur 429 milljörðum króna. Þetta kemur fram í áhættuskýrslu bankans sem var kynnt í morgun.

Stærstu einstöku liðirnir við endurskipulagningu lána einstaklinga er niðurfærsla vegna ólöglegra gengistryggðra lána sem er 41,8 milljarður króna og endurskipulagning af öðrum ástæðum sem er 46,2 milljarðar króna. Niðurfærsla vegna 110% leiðarinnar nemur 12 milljörðum króna. Þá er 10,8 milljarða lækkun vegna höfuðstólsleiðréttingar lána.

Af þeim 429 milljörðum sem hafa verið niðurfærðar af lánum fyrirtækja voru 45,8 milljarðar niðurfærðir vegna endurútreiknings gengistryggðra lána.