Íslandsbanki hefur gefið út skuldabréf upp á 100 milljónir evra, jafnvirði 15,6 milljarða króna. Þetta er fyrsta erlenda lánsfjármögnun bankans í evru. Skuldabréfið er til tveggja ára og ber 3% fasta vexti. Stefnt er að skráningu skuldabréfanna í Kauphöllina á Írlandi 16. maí næstkomandi, að því er segir í tilkynningu.

Þá segir í tilkynningunni að útgáfan er gefin út undir Global Medium Term Notes (GMTN) útgáfuramma bankans sem gefur Íslandsbanka færi á að gefa út skuldabréf í mismunandi myntum á föstum og fljótandi vöxtum. Fyrir útgáfuna, hafði bankinn stækkað útgáfurammann úr 250 milljónum dala í 275 milljónir dala.

Haft er eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að útgáfi marki tímamót og að hún komi í í kjölfar birtingar á lánshæfismati frá Standard & Poor´s sem gaf Íslandsbanka BB+/B. Það sé góð lánshæfiseinkunn miðað við einkunn ríkisins. Þá lauk Íslandsbanki skuldabréfaútgáfu í sænskum krónum í lok síðasta árs sem var svo stækkuð í mars síðastliðnum.

Um kjörin segir Birna:

„Það er ánægjulegt að sjá að kjörin fara batnandi sem endurspeglar traust fjárfesta til Íslandsbanka og á því uppbyggingarstarfi sem hefur skilað okkur öflugum og ábyrgum banka.  Kjarnastarfsemin er að skila stöðugum og jöfnum tekjum, endurskipulagningu er nánast lokið og eiginfjár- og lausafjárstaða bankans er góð.“