Íslandsbanki hefur í dag gefið út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir sænskra króna til 10 ára með innköllunarheimild af hálfu útgefanda eftir 5 ár (10NC5). Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Skuldabréfið, sem er víkjandi og telur til eiginfjárþáttar 2 (e. Tier 2), ber fljótandi vexti 390 punkta ofan á þriggja mánaða millibankavexti í sænskum krónum. Búist er við að útgáfan fái lánshæfismatseinkunna BBB- frá S&P Global Ratings sem er einkunn í fjárfestingaflokki.

Þetta er þriðja víkjandi skuldabréfaútgáfa Íslandsbanka en í nóvember 2017 gaf bankinn út sína fyrstu víkjandi skuldabréfaútgáfu að fjárhæð 750 milljónir sænskra króna og í ágúst 2018 gaf bankinn út aðra víkjandi skuldabréfaútgáfu að fjárhæð 500 milljónir sænskra króna.

Með þessari útgáfu hefur Íslandsbanki náð markmiði sínu um útgáfu á Tier 2 skuldabréfum og er þetta mikilvægur áfangi í uppbyggingu á langtíma eigin fjár samsetningu bankans. Líkt og í fyrri víkjandi skuldabréfaútgáfum bankans þá voru norrænir fagfjárfestar áberandi í fjárfestahópnum sem ber vott um um sterka stöðu Íslandsbanka á norrænum fjármálamörkuðum.
Útgáfan verður gefin út undir 2,5 milljarða dollara Global Medium Term Notes (GMTN) útgáfuramma bankans. Grunnlýsingu

GMTN rammans ásamt viðaukum má finna á vefsíðu fjárfestatengsla hjá bankanum. Stefnt er að skráningu skuldabréfanna í Kauphöllina á Írlandi þann 26. júní 2019. Umsjónaraðilar útboðsins voru Danske Bank, Nordea og Swedbank.