Íslandsbanki hefur birt ársuppgjör fyrir árið 2015.

Hagnaður bankans á árinu var 20,6 milljarðar króna, samanborið við 22,7 milljarða árið áður. Fram kemur í uppgjörinu að munurinn liggur að mestu leyti í einskiptisliðum og styrkingu krónunnar. Arðsemi eigin fjár var 10,8% á árinu, samanborið við 12,8% ári áður.

Grunnrekstur bankans styrkist milli ára, en hagnaður af honum var 16,2 milljarðar á árinu, samanborið við 14,8 milljarða ári áður. Arðsemi eigin fjár í reglulegri starfsemi miðað við 14% eiginfjárhlutfall A var 13,2% samanborið við 12,6% árið 2014. Kostnaðarhlutfall var 56,2% á árinu, en var 57,7% ári áður.

Hreinar vaxtatekjur voru 28,0 milljarðar, voru 27,1 milljarðar árið 2014. Vaxtamunur var 2,9%, en voru 3,1% árið 2014. Hreinar þóknanatekjur voru 13,2 milljarðar, samanborið við 11,5 milljarða ári áður, eða 15% aukning milli ára, en þar af var 6,7% hækkun hjá móðurfélagi.

Útlán til viðskiptavina jukust um 5% á árinu í 665,7 milljarðar og innlán frá viðskiptavinum jukust um 2,1% milli fjórðunga og voru 593 milljarðar við árslok 2015.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Árið 2015 var farsælt í rekstri Íslandsbanka og afkoma bankans umfram væntingar. Þóknanatekjur jukust um 14,7% og vaxtatekjur um 3,3% frá fyrra ári. Grunnrekstur bankans heldur áfram að styrkjast en hagnaður af reglulegri starfsemi jókst um 9,1% frá árinu 2014“