Hagnaður Íslandsbanka á fyrri helmingi þessa árs nam um 8,3 milljörðum króna, samanborið við 8,1 milljarð á sama tíma í fyrra.

Hagnaður fyrir skatta nam um 10,6 milljörðum króna, samanborið við 9,5 milljarða á sama tíma í fyrra, en áætlaður tekjuskattur tímabilsins er áætlaður rúmir 2,3 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi Íslandsbanka sem birtur var í dag.

Athygli vekur að hreinar vaxtatekjur bankans námu á fyrri hluta ársins um 20,3 milljörðum króna, samanborið við 12,2 milljarða á sama tíma í fyrra. Þá námu hreinar þóknunartekjur um 3,3 milljörðum króna, samanborið við 3,6 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

Eiginfjárhlutfall bankans var 21,5% á tímabilinu og arðsemi eigin fjár var 17,1%. Þá var eigið fé bankans í lok júní 100,4 milljarðar króna.

Þá námu heildarútlán til viðskiptavina og fjármálafyrirtækja um 570 milljörðum króna við lok tímabilsins en á sama tíma námu innlán um 458 milljörðum króna. Þannig var hlutfalla heildarinnlána af heildarútlánum 80,3% í lok tímabilsins.

Heildarstærð efnahagsreikningsins í lok júní var um 699,8 milljarðar króna og dregst saman um rúma 17 milljarða frá fyrra ári. Þar munar talsvert um innstæður bankans hjá Seðlabankanum sem minnka um rúma 13 milljarða á milli ára og námu í lok júní um 25,3 milljörðum króna. Á sama tíma hafa lán til stofnana aukist um rúma 7 milljarða en lán til viðskiptavina minnkað um 15 milljarða.